Hólmar Björn SiGþórsson
Ökukennari
Bílprófið
Ökunám til almennra ökuréttinda getur hafist við 16 ára aldur.
Fyrstu skrefin eru að nemandinn, eða foreldrar /forráðamenn hans, velja ökukennara og setja sig í samband við hann.
Ökukennarinn fer yfir ýmis hagnýt atriði með nemandanum/foreldrum/forráðamönnm á stuttum fundi og útskýrir ferli ökunámsins frá upphafi til enda. Meðal annars, er farið yfir kennsluáætlun, námsefni, kostnað og greiðslukjör.
Ökukennarinn afhendir nemandanum ökunámsbók.
Nemandinn sækir sjálfur um námsheimild til sýslumanns með því að fylla út umsóknarblað um ökuskírteini (nýr flokkur). Með umsókninni skal fylgja ljósmynd (35*45mm); heilbrigðisyfirlýsing eða læknisvottorð; yfirlýsing um fasta búsetu á landinu; yfirlýsing um að umsækjandi sé ekki þegar handhafi EES-ökuskírteinis eða hafi verið sviptur ökuréttindum í EES-ríki.
Sýslumaður veitir námsheimild, sem er um leið heimild til próftöku.
Nemandinn byrjar verklegt ökunám hjá ökukennaranum sínum og tekur í fyrstu að lágmarki 10 kennslustundir.
Nemandinn sækir bóklegt nám í Ökuskóla 1 (Ö1) samhliða verklega náminu (12 kennslustundir). Hann ræður sjálfur hvaða ökuskóli verður fyrir valinu og ber sjálfur ábyrgð á að skrá sig.
Nemandinn leggur inn umsókn hjá sýslumanni um æfingaakstursleyfi þegar a.m.k. 10 verklegum kennslustundum er lokið. Umsóknina er að finna í ökunámsbókinni og þar þarf að koma fram staðfesting ökukennarans og ökuskólans að nemandinn hafi hlotið fullnægjandi kennslu. Leiðbeinandinn í æfingaakstrinum þarf að hafa náð 24 ára aldri, haft ökuréttindi í 5 ár og ekki verið sviptur ökuréttindum sl. 12 mánuði.
Nemandinn heldur áfram með verklegt ökunám hjá ökukennaranum og tekur a.m.k 4 kennslustundir.
Nemandinn sækir bóklegt nám í Ökuskóla 2 (Ö2) samhliða verklega náminu (10 kennslustundir). Hann ræður sjálfur hvaða ökuskóli verður fyrir valinu og ber sjálfur ábyrgð á að skrá sig.
Nemandinn sækir verklegt (2 kennslustundir) og bóklegt (3 kennslustundir) nám í Ökuskóla 3. Skilyrði er að Ö1 og Ö2 og a.m.k. 12 verklegum kennslustundum hjá ökukennaranum sé lokið til að geta tekið þátt, en nemandinn ber sjálfur á ábyrgð á að skrá sig. Mikilvægt er að hafa ökunámsbókina meðferðis, annars fæst ekki heimild til þátttöku. Ökuskóli 3 er við Álfhellu 3 í Hafnarfirði.
Nemandinn tekur skriflega ökuprófið (heimilt er að taka það allt að 2 mánuðum fyrir 17 ára afmælisdaginn). Mest má fá 2 villur í fyrra hluta prófsins og 5 í þeim seinni. Próftíminn er 45 mínútur.
Nemandinn fer í verklegan ökutíma hjá ökukennaranum, sem er jafnframt síðasta kennslustundin, og er undirbúinn undir lokaprófið.
Nemandinn getur tekið verklega ökuprófið allt að 2 vikum fyrir 17 ára afmælisdaginn. Það hefst á munnlegu prófi um ýmsa þætti varðandi bifreiðina og þarf að ná 60% árangri til að fara í verklega hlutann. Ath! Ekki mega líða meira en 6 mánuðir á milli bóklega og verklega prófsins.
Nemandinn fær útgefið bráðabirgðaökuskírteini þegar hann hefur staðist verklega ökuprófið. Það gildir í 3 ár.
Til að fá fullnaðarökuskírteini að 3 árum liðnum þarf að fara í akstursmat hjá ökukennara. Hægt er að framkvæma akstursmatið eftir aðeins 12 mánuði ef engir refsipunktar eru skráðir í ökuferilsskrá og fá með því fullnaðarökuskírteinið 2 árum fyrr en ella hefði verið.
Ef þig vantar nánari upplýsingar þá er þér velkomið að hafa samband við mig í s. 893 3276 eða senda tölvupóst á okukennsla.holmars@gmail.com.